Hugmyndafræði NPA


Fyrir hvern?

Að jafnaði hafa þeir einstaklingar sem þurfa sértæka aðstoð í athöfnum daglegs lífs, umfram 15 klst. á viku, rétt á að nýta sér NPA samninga.

Um leið og einstaklingur með fötlun hefur gert samning um Notendastýrða Persónulega Aðstoð hefur hann val um hvaða þjónustu hann fær, hvar hún er veitt, hvernig og hvenær hún er veitt og síðast en ekki síst, af hverjum þjónustan er veitt.

Sjá nánar í kaflanum hér að neðan.


Hvar?

Megin markmið með NPA þjónustu er að auka möguleika fólks með fötlun til sjálfstæðis á heimili sínu, í atvinnu, menntun og frístunda- og menningarlífi.

NPA þjónustuformið er því mikilvægt framlag til jafnréttis, jafnræðis og samfélagsþátttöku þeirra sem búa við fötlun og hafa þörf fyrir aðstoð af þeim sökum.

Þjónustan er ávallt veitt þar sem notandi aðstoðarinnar þarfnast hennar og getur hún verið á heimili hans, á vinnustað, í skóla, á ferðalögum eða almennt þar sem notandinn þarf á aðstoðinni að halda.


Af hverjum?

Þeir sem ráðnir eru til aðstoðar kallast aðstoðarmenn og er hlutverk þeirra að aðstoða notandann við þær athafnir daglegs lífs, sem fötlun hans hamlar honum að gera sjálfur.

Störf aðstoðarfólks geta þannig verið mjög fjölbreytt og fara eftir þörfum og lífsstíl hvers notanda fyrir sig. Hlutverk aðstoðarfólks er ekki að stýra lífi notandans, heldur að aðstoða hann við að annast sig sjálfur.

Í þeim tilvikum sem notandi getur ekki séð um verkstjórn sína sjálfur er honum útvegaður aðstoðarverkstjórnandi sem fer þá með verkstjórnina.


Frekari upplýsingar um NPA

Hugmyndafræðin
NPA byggir á hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf þar sem megin hugsunin er að tryggja réttinn til að stjórna eigin lífi, þrátt fyrir að þurfa aðstoð annarra til að svo megi verða. Hugmyndafræðin felur því í sér að fólk með fötlun geti tekið eigin ákvarðanir, óháð eðli og alvarleika skerðingar og sé því við stjórnvölinn í eigin lífi.

Ferlið að lögfestingu laganna
Upptök hugmyndafræðinnar má rekja til Bandaríkjanna á 7. áratug síðustu aldar en hugmyndafræðin fór ekki að berast til Evrópu fyrr en á 8. og 9. áratugnum. Fyrst er minnst á NPA í íslenskum lögum árið 1992 en þingsályktunartillaga um innleiðingu NPA var ekki samþykkt á Alþingi fyrr en í júní 2010 og í sama mánuði voru Samtök um sjálfstætt líf stofnuð. Samtökin voru starfandi fram í júní 2010 þegar þau runnu inn í nýstofnaða NPA miðstöð sem var og er samvinnufélag í eigu fólks með fötlun. NPA þjónustuformið var síðan lögfest í apríl 2018 og tóku lögin gildi í október sama ár, en fram að því höfðu verið tilraunaverkefni um sambærilega þjónustu frá árinu 2011 og voru þeir samningar endurtekið framlengdir á innleiðingartímabili laganna

Sjálfstætt líf
Með sjálfstæðu lífi er átt við að einstaklingar með fötlun geti ákveðið og valið hvaða þjónustu það fær, hvar hún er veitt, hvernig, hvenær og af hverjum. Einstaklingurinn er því við stjórnvölinn í eigin lífi m.a þegar kemur að fjármálum, stjórnmálum, menningu, fjölskyldulífi, menntun, atvinnu og tómstundum svo eitthvað sé upp talið.

Fimm meginatriði eru talin upp sem nauðsynleg forsenda fyrir sjálfstæðu lífi; húsnæði, ferðafrelsi og samgöngur, aðgengi, jafningjafræðsla og ráðgjöf og síðast en ekki síst NPA sem er forsenda þess að hægt sé að tryggja sjálfstætt líf og þjóðfélagsþátttöku á jafnréttisgrundvelli. Með fjárframlögum frá ríki og sveitarfélögum getur einstaklingur með fötlun keypt sér þá þjónustu sem hann þarf og hentar honum best, frá þeim sem hann kýs að þiggja aðstoðina frá. Það má því segja að með NPA færist frumkvæðið og valdið frá þjónustukerfum sveitarfélaga yfir til notandans eða verkstjórnanda hans, sem er til mikilla bóta fyrir einstaklinga sem búa við fötlun.

Sáttmáli Sameinuðu Þjóðanna
Rétturinn til sjálfstæðs lífs er tryggður í samningi Sameinuðu Þjóðanna (SÞ) um réttindi fatlaðs fólks, sem samþykktur var á allsherjarþingi SÞ árið 2006 og fullgiltur af íslenskum stjórnvöldum árið 2016. Samningnum er m.a. ætlað að stuðla að því að fatlað fólk hafi sömu tækifæri og aðrir til þess að nýta mannréttindi sín og taka virkan þátt í samfélagi sínu án aðgreiningar.

Lögin
Rétturinn til NPA nær að jafnaði til einstaklinga sem þurfa sértæka aðstoð umfram 15 klst. á viku, sbr. 3. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, þar sem vísað er til 26. og 27. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þeir sem uppfylla ekki skilyrði fyrir samkomulagi um vinnustundir vegna NPA geta sótt um að fá aðstoð á grundvelli notendasamnings skv. 10. gr. sömu laga og gera þá beingreiðslusamning við sitt lögheimilissveitarfélag.

Samkvæmt bráðabirgðaákvæðum í fyrrgreindum lögum nr. 38/2018 er gert ráð fyrir framlagi ríkisins til allt að 150 NPA samninga á árinu 2021 og 172 samningum árið 2022 en samkvæmt upplýsingum á vef Stjórnarráðsins voru einungis gerðir 83 samningar á árinu 2020. Samkvæmt þessu ætti að vera svigrúm til aukinna NPA samninga og því merkilegt að bið skuli vera eftir samningum.

-Ykkar velferð okkar mál-
NPA Setur Suðurlands vill stuðla að auknum lífsgæðum þeirra sem búa við fötlun og tækifærum þeirra til sjálfstæðis í leik og starfi og hvetur því einstaklinga með fötlun til að sækja um NPA samninga við sitt lögheimilissveitarfélag þar sem lífsgæði þeirra sem búa við fötlun eiga ekki að vera háð fjárhagsstöðu ríkis og sveitarfélaga.

NPA Setur Suðurlands er til ráðgjafar og aðstoðar fyrir þá sem hafa hug á því að sækja um NPA samninga eða beingreiðslusamninga við sitt lögheimilissveitarfélag.

Frekari upplýsingar og svör við spurningum má finna á vef Stjórnarráðs Íslands, auk þess sem við erum tilbúnar að aðstoða eftir þörfum.